🫶 Jákvæð tilfærsla á heilsunni byrjar með hugarfarinu

🫶 Jákvæð tilfærsla á heilsunni byrjar með hugarfarinu

Dagurinn í dag er dagurinn til þess að taka skrefið í þinni heilsu vegferð.

Gæti verið að þú sért í þeim sporum akkúrat núna að finnast þú ekki komast upp úr sömu gömlu hjólförunum? Að þú hafir byrjað árið með ákveðnum krafti að bæta heilsuna, byrjað á því að fylla dagskránna þína með óteljandi atriðum eins og að mæta í ræktina 6 sinnum í viku og borða næringarríkan mat út frá flóknu næringarplani ? Þannig að núna er byrjað að draga úr þér, krafturinn og viljinn er að lognast út af ? Jeb, út frá þessu ertu jafnvel komin í neikvætt sjálfsniður tal og komin jafnvel dýpra í sömu hjólförin ! Hugarfarið þitt er orðið þannig að þér finnst þetta allt tilgangslaust og langar helst að draga sængina upp fyrir haus og GERA BARA ALLS EKKI NEITT.

Ég kannast við þetta, að ætla mér of mikið - að gera hluti sem engan vegin henta mér. Út frá því hef ég oft farið dýpra ofan í þessi blessuð hjólför, hjölför sem mig langaði svo alls engan veginn að vera í. Þannig að þegar það gerist á ég erfiðara með að stíga úr þessu hjólfari sem ég hef skapað mér sjálf. Ég upplifi mig fasta í ákveðnu vanlíðunar ástandi. Ég upplifi hugsanir eins og:

Ég byrja þegar ég hef meiri tíma - Ég er misheppnuð - Ég byrja þegar ég er orðin “fullkomin”

Við skulum vera hreinskilin hér. Ekkert breytist nema þú gerir það !  Þú hefur valið um að skrifa þína heilsu vegferð - þú ert ekki að missa af lestinni !

Það sem mig langar að segja þér út frá minni reynslu, er að ef þú vilt gera breytingar í dag er gott að fara að huga að því búa til betra rými og tíma, út frá jákvæðu hugarfari og sjálfsumhyggju. Það er nefnilega þannig að:

“Jákvætt hugarfar getur verið lykillinn að árangri. Því meira sem þú einbeitir þér að því að hugsa jákvætt og taka lítil sjálfsumhyggju skref að betri heilsu, því auðveldara verður að komast úr gömlum hjólförum og skapa nýja, heilbrigðari venju fyrir þig án þess að setja líf þitt á hliðina.”

Byrjaðu strax í dag að búa til heilbrigða venju í þínum takti. 

Taktu lítil og ákveðin skref

Stundum reynum við að gera of margar breytingar í einu, sem getur orðið yfirþyrmandi. Einbeittu þér að litlum, einföldum skrefum – eins og að fara í stutta göngutúra eða bæta við einu grænmeti í máltíð dagsins. Smáar, reglulegar breytingar skapa stóra sigra með tímanum. Settu athyglina á það að gera breytingar í litlum skrefum en þó með endurtekningum  - sama hversu smáar þær eru. Þessu litlu skref gefa þér ákveðið öryggi til þess að leyfa taugakerfinu að gefa eftir og fara í traustið. Ef við gerum of miklar breytingar á stuttum tíma - bregst taugakerfið við með því að fara í varnarstöðu - þannig myndast ákveðið ástand - flýja - frjósa - gera ekki neitt ! 

Settu athyglina inn á við - Myndaðu ný tengsl við þig

Þegar við verðum meðvituð um neikvætt hugarfar eða ávanabundin viðbrögð getum við byrjað að móta nýja hegðun. Með því að skoða, vega og meta hugsanir, tilfinningar og viðbrögð með opnum huga getur þú öðlast innsýn í hvað mótar þína upplifun.  Þessi “róandi athygli” getur dregið úr óeðlilegri örvun í taugakerfinu og þannig aukið parasympatíska virkni, sem leiðir til  ró og jafnvægis. Það sem er að við þurfum í raun að læra að hugsa jákvætt - 

Þjálfa hugann til betri virkni - þjálfa hugann til þess að styðja við okkur frekar en að draga úr. Þegar við erum föst í ákveðnu vanlíðunar ástandi á heilin það til að draga upp frekar neikvæðar hugsanir en þær jákvæðu. Heilinn setur athyglina á þetta neikvæða, þannig stækkar það, verður fyrirferðarmeira. Það mótar daginn okkar - það mótar hvaða ákvörðun við ætlum að taka fyrir okkur. Til þess að draga úr þessari óeðlilegu örvun á taugakerfinu þurfum við ákveðna hvíld - djúpslökun. Í hvíldinni erum við að endurstilla og endurnýja frumurnar okkar. Heilinn verður móttækilegri fyrir nýjum tillögum eins og meiri jákvæðni. Þannig byggir þú upp betri grunn að jákvæðara hugarfari.

Nálgastu sjálfan þig með sjálfsmildi, sjálfumhyggju og ást.

Það skiptir máli hvernig þú hugsar og talar til þín. Ef þú ert sífellt að gagnrýna sjálfan þig, getur það haldið þér föstum í sömu hjólförunum. Til þess að hjálpa þér að brjóta þetta ástand upp er að hugsa þetta öðruvísi en venjulega. Hvað ef þú myndir geta sett inn “ tíma fyrir sjálfsumhyggju” til þess að ná þeim árangri sem þú vilt ná fram. Heldur að það verði ekki auðveldara að t.d fara í ræktina, gönguna eða jóga tímann ? Ef þú lítur á þetta sem ákveðna ást til þín til þess að líða betur. Frekar en að draga þig áfram um að þú verður að gera. Þannig nær taugakerfið að gefa eftir, taugakerfið upplifir þetta ekki sem ógn frekar sem ákveðið öryggi.

Sjálfsumhyggja er lykilatriði í að breyta hugarfarinu. Gefðu þér tíma til að hugsa um hvað líkaminn og hugurinn þurfa. Það gæti verið hvíld, göngutúr í náttúrunni eða smá stund í hugleiðslu. Sjálfsumhyggja hjálpar þér að sjá að þú ert þess virði að líða vel, sjálfumhyggja hjálpar þér að takast á við áreiti og neikvæðar hugsanir og hvetur okkur til að gefa okkur rými til að vaxa og þroskast. Sjálfsumhyggja ýtir undir jákvæða sjálfsímynd og sjálfsþekkingu.

Sjálfsumhyggja er SJÁLFVIRKNI í eigin garð, sem er nærandi fyrir þig þannig að þú upplifir vellíðan og hamingju. Sjálfsumhyggja er að gefa sér rými til vaxtar, rými til að huga að sjálfum sér, og setja ákveðin mörk hvað varðar samskipti og sambönd.

Gott er að byrja á því að taka frá tíma í dagbókinni þinni. Í hverri viku tekur þú tíma frá fyrir sjálfsumhyggju tíma. Tímalengdin þarf ekki að vera löng. Nokkrar mínútur fyrst er gott. Byrja smátt og þannig finnur þú að þú ráðir betur við að taka frá tíma. Þegar sjálfsumhyggja er komin í rútínu mun það hjálpa þér að öðlast visst jafnvægi fyrir huga og líkama. Þú öðlast ákveðna festu til þess að fara í endurtekninguna, inn í vöxtinn. Þannig býrðu til nýja góða venju sem styðja við þig í þinni heilsu vegferð.

Vertu verandi fyrir þig - komdu þér upp úr hjólförunum

Ef þú finnur að þú ert fastur í sömu venjum og ekkert gengur, spurðu sjálfan þig: „Hvað gæti ég gert öðruvísi?“ Kannski er það að prófa nýja leið, breyta viðhorfinu eða nálgast hlutina með meira jákvæðni og trúa á það að þú sért nú aldeilis fær um að gera breytingar - trúðu á eigin getu - þú getur alltaf valið !

Nærandi kveðja

Jana




Aftur á bloggið