Þessi setning hefur setið í mér undanfarna daga, HVAÐ HEF ÉG EIGINLEGA GERT !
Hugurinn hefur verið á milljón, mótstaða hefur látið á sér kræla. Þannig að ég hef velt fyrir mér hvað fær konu eins og mig, MIÐALDRA að flytja til Spánar. Fara frá vel bókaðari nuddstofu, ásamt vel heppnuðum námskeiðum, ásamt því að eiga besta eiginmann í heimi (sem var skilin eftir, tímabundið).
Tilfinninga rússíbani hefur aldeilis komið inn með látum. Hreyft vel við mér. Ég hef upplifað allan tilfinningaskalann, þá mest tómleikan. Þannig að ég hef átt erfitt með að finna mig en samt ekki þannig að mér líki ekki hér. Það hefur sóst að mér efi. Efinn lætur mig finna höfnun, höfnun lætur mig finna vonleysi, vonleysi lætur mig finna að ég get ekki framkvæmt.
Auðvitað gerði ég mér grein fyrir því að þessar breytingar yrðu ekki bara auðveldar og ég myndi eflaust reka mig á ýmislegt. Ég vissi að ég myndi nú ekki ganga hér um á spáni á bleiku skýi, halda það að ég yrði alltaf túristi og það yrði alltaf sól og sandur.
Ég setti mér það áður en ég fór á stað í þetta ævintýri, að athuga málið hér á spáni þegar ég ákvað að láta slag standa og drífa mig. Ég hef verið á leiðinni síðustu 2 ár. Ég sagði við sjálfan mig að það er í lagi að prófa, koma þá heim og halda áfram að sinna sínu.
Það er gott að skoða og vera meðvitaður um að stundum eigum við það til að dæma of fljótt, dæma þannig að ef það fer ekki alveg eins og var upplagt með, þá hljóma orð kollinum okkar eins og: MÉR HEFUR MISTEKIST ! Þetta er bara höfnun og vonleysi. Eða öfund í garð þeirra sem framkvæma.
Þennan hugsunargang, sem er neikvæður þarf að breyta, hjá mér og þér. Þau sem láta slag standa og framkvæma eru oft á tíðum þeir sem eru með kjarkinn.
Kær mágkona mín sendir mér oft línu þegar ég er að brasast eitthvað svona út fyrir þægindarammann. Hún segir að ég framkvæmi ! Mér þykir alltaf svo vænt um þessi orð hennar, þau gefa mér styrk.
Af hverju spánn?
Byrjun á þessu ævintýri á sér langa sögu. Það var árið 2015 sem ég er stödd í litlu þorpi upp í fjöllum Sierra nevada, í Andalúsíu héraði hér á spáni. Þar vann ég á litlu jóga setri. Hafði farið þangað til að læra eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir. Þarna var ég í um 6 vikur.
Þegar ég sit þarna og horfi upp í fjöllin fæ ég þá hugsun að einhvern tíma langar mig að búa í þessu landi. Læra tungumálið og menningu þessa land, ásamt því að starfa við það sem ég hef gert undanfarin ár. Ég fíla sólina, hægaganginn og náttúruna.
Síðan eru liðin sjö ár. Á þessum árum sem liðin eru hefur mér verið gefið allskonar verkefni. Sum verkefnin misgóð sem hafa gefið mér vöxt í mínu lífi, ásamt öðrum verkefnum sem hafa verið töluvert auðveldara að vinna. Öll þessi verkefni hafa gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Þrátt fyrir að stundum hafa þau gengið ansi nærri mér. Í dag er í þakklát þessum tækifærum, og hef haft það í huga núna þegar ég tekst á við þetta nýja verkefni mitt hér á spáni. Ef til vill á öllum þessi tíma var verið að undirbúa mig, fyrir frekari dvöl á spáni.
Sjá það myndrænt hefur hjálpað mér
Það var árið 2017 sem ég sest niður eftir erfitt tímabil í mínu lífi, geri mér grein fyrir að nú þurfi ég að nota styrkinn minn í að finna út úr hvað er það næsta sem mér er ætlað að gera. Ég sest niður og geri mér “vision board” á íslensku sjónspjald. Þarna sat í dágóðan tíma og leyfi bara öllu að koma til mín. Þetta spjald hefur fylgt mér alla tíð síðan. Þetta gaf mér góða sýn í hvað ég raunverulega vildi.
Þarna fór ég markvisst að vinna að því sem mér langaði að gera. Það má líka segja að ég var byrjuð á mörgu án þess að gera mér grein fyrir því. Ég var búin með nám í heilsufræðum, jógakennarann og var að lesa mér til um hugleiðslur, sjálfsrækt, hvernig hugurinn vinnur og vinna mikið í eldhúsinu við það að búa til góða næringarríka rétti, ásamt því bauð ég upp á óhefðbundið nudd með ilmkjarnaolíum.
Að staldra við, hvaða reynslu hef ég
Oft er gott að staldra við. Skoða, skynja og leyfa. Sjá hvað er. Hvað hef ég gert, hvað á ég í pokahorninu. Halda síðan áfram, þrátt fyrir hindranir. Hindranirnar geta oft á tíðum kennt okkur ýmislegt, sem við getum síðan notfært okkur. Lífið er ekki án hindrana. Það er bara hvernig við tökumst á við þær.
Frá því að ég gerði spjaldið góða, hef ég náð að gera svo mikið. Stundum hreinlega gleymi ég því hversu mikið ég hef gert, hvað varðar nám og vinnu. Síðustu 3 ár hafa verið mjög lærdómsrík.
Að reka sitt eigið fyrirtæki með nuddi, jóga og námskeiðinum hefur kennt mér svo ótrúlega mikið. Þessi vegferð hefur aldeilis komið með hindranir og ýmisleg verkefni, en aldrei vil ég ekki hafa farið hana. Að reka sitt eigið er ekki sjálfgefið að gangi vel. Þess vegna er það svo ótrúlega gaman að upplifa það að vel gangi.
Að trúa á sjálfan sig, kjark, þor og eljusemi og óbilandi trú að ná að umbreyta hugsun hjá einni manneskju hef ég haft að leiðarljósi öll þessi ár. Að sjá fólkið sem kemur til mín, líða betur í sínu eigin skinni og þannig leyfir það sér að umbreyta venjum bara til þess eitt að láta sér líða betur. Vitundarvakning er það sem drífur mig áfram í mínu starfi.
Af hverju að fara frá þegar vel gengur
Þannig að svo ég haldi nú áfram með það sem ég byrjaði á að fjalla um í þessum ágæta pistli, þessa tilfinninga rússíbana ferð sem ég virðist vera á.
Ég áttaði mig á þessu þegar ég var búin að grenja úr mér augun einn daginn, langaði heim. Fann fyrir svo miklum tómleika, höfnun og vanlíðan. Þetta kom mér á óvart. Vegna þess að ég hef undanfarin ár unnið markvisst í mínum málum en eins og lífið er, vitum við aldrei hvað gerist næst.Það kom mér á óvart að ég var í raun stödd í draumnum mínum, en var leið þannig að mér langaði hreinlega að hlaupa í burtu, undir sæng og aldrei hugsa meir.
Á þessum fyrstu vikum nýtti égmér allt sem ég kann, en átti kannski pínu erfitt með það, en tók lítil skref í áttina að betri líðan. En allt kom fyrir ekki þá komu þessar stundir eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þess á milli er ég í fínum gír.
Allt hefur sinn tilgang, lærdóm og vöxt í lífinu
Tómleikinn er hvað erfiðastur. Ég hef áttað mig á því að það er eitthvað sem ég þarf að mæta. Hvar sem ég er stödd í veröldinni. Þá er ég ekki endilega að tala um að t.d sakna Sigga míns, sem ég geri auðvitað mikið og Kela kút(kötturinn okkar) og allra hinna sem eiga þátt í mínu lífi.
Heldur er það tilfinningi sem situr svo djúpt í öllum mínum frumum og vill ekki sleppa. Ég skynja að ég þarf að sleppa tökum á tilfinningum sem hafa fylgt mér svo lengi, hafa látið mig finnast ég einskis nýt, að ég sé ekki nóg.
Ég hef fundið sterk að það er eitthvað þarna sem ég þarf að skoða betur í mínu eigin lífi til þess að mér líður betur. Þetta spánar ævintýri er ef vill að sýna mér það. Fara út úr þægindarammanum, þannig að ég sjái hvað þarfnast meiri heilunar hjá mér. Lífið sýnir okkur oft útrúlegustu hluti í tómleikanum. Það er eitthvað sem þarfnast umhyggju og ástar, án þess að dæma.
Í gegnum lífið mitt hef ég farið í gegnum allskonar mótlæti, höfnun og ofbeldi. Í gegnum þessi ár hef ég notað ýmislegt til að ýta þessum hugsunum frá mér.
Eitt af því sem ég hef notað sem mest er sykur, og annað sem ég hef búið mér til eru neikvæðar hugsanir gagnvart sjálfum mér. Okkur er svo tamt að setja eitthvað annað í staðin en það sem við hreinlega þurfum. Þetta er mótstaða. Við búum hana til í hugsunum okkar. Það mætti segja að við værum að flýja það sem þarfnast úrbóta með því að búa okkur til eitthvað sem er auðveldara að gera.
Þrátt fyrir að vera komin svo langt í mínum persónulega vexti, kemur upp sú staða öðru hverju að ég vel frekar sykur heldur en að fara t.d í göngu eða mæta mótstöðunni með einhverri þeirri leið sem ég veit að er betri en sykur. Stundum sem þessum hefur minnkað. Það er vöxtur. (ruglum samt ekki saman að eiga góða stund, fá sér eitthvað gott, án þess að lífið fari á hliðina, gott er að kunna að njóta)
Í dag þegar ég sit hér á svölunum mínum úti á spáni. Staður sem mig hefur dreymt lengi um. Þá veit ég að ég er á minni vegferð, vegferð sem á eftir að efla mig. Ég skynja svo sterkt að þarf að mæta þessum tómleika sem líklega kemur út frá ótal atriðum í mínu lífshlaupi. Öll sú þekking sem ég hef í farteskinu mun ég nota.
Jafnvel finna mér eitthvað sem styrkir mig.
Það sem ég er mjög meðvituð um að mig langar ekki að setja eitthvað annað í staðinn, eins og sykur eða eitthvað annað. Heldur leyfa þessum að gerast á sýnum hraða. Leyfa mér að spyrja spurninga, vera í þakklætinu og njóta. Ég er stjórnandinn í mínu lífi.
Þinn draumur
Að breyta um lífsmynstur, eða jafnvel lifa draumnum sínum er ekki endilega auðvelt. Draumurinn birtist í allskonar myndum, það tekur tíma, það kemur hjáleið og hindranir. Það að breyta um stefnu í að lifa draumum er það eðlilegasta í heimi. Að ákveða eitthvað annað er líka í fínu lagi. Allt er þetta þinn persónulegi vöxtur.
Að taka skrefið er það undarsamlegasta, að þora og standa með sjálfum sér er það sem gefur þér mest. Ég get lofað þér því. Þannig gefur mér mestu uppörvun. Draumurinn þarf ekki að vera stór. Bara að það sé þinn.
Loka orðin eru þau að við erum svo margbrotin og allskonar. Við eigum það til að dæma hart þá sem þora að gera og vera. Ekki detta í þann pitt .Á bak við hverja manneskju er alltaf líf með miklum öldugangi. Virðum það. Ég má vera ég, þannig gef ég af mér til allra sem verða á vegi mínum. Það er lífið.
Þessi pistill er skrifaður fyrir þig kæri lesand til þess að þú fáir kjark til að gera það sem þig langar. Þú getur allt. Taktu skrefið í dag. Litlu skrefin sem þú tekur daglega er draumurinn, ekki endilega útkoman.
Við elskum að hlusta á góða sögu
Mig langar að nefna að ég verð með viðburð á næstu vikum, líklega í desember, þegar árið er að renna sitt skeið.
Yfirskriftin á þessum viðburði er: Getur sagan mín ýtt við sögunni þinni. Við ætlum að hittast, spyrja spurninga, fara yfir lífið, njóta og umfram allt heyra sögu sem jafnvel gæti hreyft við þér. Online og ókeypis.
Hlakka til að hitta þig. Þú ert einstök manneskja
Jana